Úthýsing einfaldar starfsemi fyrirtækja
Afleiðing af harðri samkeppni og kröfum hlutabréfamarkaðar
Sívaxandi hluti fyrirtækja um allan heim virðist telja hagsmunum sínum best borgið með því að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni og láta sérhæfðum fyrirtækjum eftir aðra þætti starfsemi sinnar. Segja má að þetta sé afleiðing af síharðnandi samkeppni og kröfum hlutabréfamarkaðarins um árangur og aukið virði til hluthafa.Michael F. Corbett, forstjóri bandaríska fyrirtækisins Michael F. Corbett & Associates Ltd. sem þekkt er fyrir að annast ráðgjöf á sviði úthýsingar, lýsti þessu svo á ráðstefnu sem haldin var um úthýsingu hérlendis sl. vor: “Nú á dögum þurfa stjórnendur fyrirtækis stöðugt að hafa hugann við vöxt þess, arðsemi og virðisaukningu hlutafjár þess. Til að ná þessum markmiðum þurfa þeir í síauknum mæli að glíma við kostnað, hraða, sveigjanleika og nýsköpun. Úthýsing er eitt þeirra mörgu stjórunartækja sem nýtast til þessa […..]. Staðreyndin er sú að ef starfsemi fyrirtækisins er of flókin og menn vilja gera allt sjálfir, þá er erfiðleikum bundið að vera samkeppnishæfur. Þess vegna er hentugt að úthýsa þeim þáttum starfseminnar sem aðrir geta séð mun betur um en maður sjálfur. Þá vex líka einbeitingin á þá þætti sem maður er virkilega góður í.”
Umskipti frá samþættingu rekstrarþátta
Athyglisvert er að þetta eru umskipti frá þeim stjórnunaraðferðum sem einkenndust af hinni lóðréttu og láréttu samþættingu rekstrarþátta á níunda áratugnum. Fyrirtækin áttu það hins vegar til að vaxa í allar áttir og fyrr en varði voru stjórnendur þeirra að drukkna í hvers kyns óarðbærri starfsemi. Nú hefur þetta snúist við. Stjórnendur vilja skýrari línur og leggja áherslu á einföldun rekstrar, bæði stjórnunarlega og fjárhagslega.Erfitt getur reynst að greina á milli kjarnaþátta í starfsemi fyrirtækis og stoðþátta en Corbett ráðleggur mönnum að spyrja sig þriggja spurninga til að ákveða hvort þáttur í rekstri fyrirtækis sé hluti af kjarnastarfsemi eða ekki. Fyrst þurfi menn að gera sér grein fyrir hvort þeir mundu annast viðkomandi þátt sjálfir ef þeir væru að hefja rekstur í dag enda muni nýir keppinautar gera það. Þá sé að ákveða hvort aðrir væru tilbúnir til að ráða mann til að annast sams konar verk fyrir þá. Loks þurfi að svara þeirri spurningu hvort líklegt sé að framtíðarleiðtogar fyrirtækisins muni spretta frá þessum þætti. Þrátt fyrir að fyrirtæki sjái sér mikinn hag í því að úthýsa tilteknum þáttum þá getur slíkt mætt mikilli andstöðu innan fyrirtækisins, ekki síst meðal þeirra starfsmanna sem sinna viðkomandi þætti. Algeng er hræðslan við að missa þekkingu út úr húsi eða missa tökin á mikilvægum rekstrarþáttum en brýnt er að greina á milli þeirra þátta sem eru starfseminni mikilvægir og þeirra sem tilheyra kjarnastarfsemi. Fyrirtæki geta með úthýsingu aukið sveigjanleika og hraða auk þess sem þau geta losað um fjármagn með auknum breytilegum kostnaði í stað fjárfestinga. Þessir þættir geta t.a.m. haft veruleg áhrif á rannsóknir og þróun innan fyrirtækis.
Fjárhagslegur ávinningur enn helsta ástæða úthýsingar
Úthýsing hefur á rúmum áratug rutt sér til rúms í bandarískum fyrirtækjarekstri. Stjórnendur þarlendra fyrirtækja hafa nýtt sér þessa leið til að auka skilvirkni og beina athyglinni að innri þáttum starfseminnar. Vöxturinn í Bandaríkjunum hefur verið gríðarlegur og svo virðist sem úthýsing muni áfram aukast til muna.Fyrirtækin hafa með tímanum orðið færari í að úthýsa þáttum úr starfsemi sinni. Þau hafa orðið færari í að velja sér samstarfsaðila, semja við þá og stýra samskiptum við þá. Þá hefur þeim leiðum sem farnar eru við úthýsingu að sama skapi fjölgað. Nokkur þróun hefur orðið á eðli úthýsingar rekstrarþátta, líkt og sjá má af greinum tímaritsins Fortune hvað þetta varðar. Upphaflega var úthýsing fyrst og fremst notuð til að skera niður kostnað. Borinn var saman kostnaður af því að gera hlutina sjálfur og láta aðra gera þá fyrir sig. Reynt var að meta hvor gæti gert hlutina betur, hraðar og, það sem mestu máli skipti, ódýrar. Kostnaður er reyndar enn einn helsti hvatinn að úthýsingu en það hefur þó verið að breytast. Smám saman fóru stjórnendur að horfa meira til kjarnastarfsemi fyrirtækjanna, þ.e. þeirra þátta sem höfðu hvað beinast með árangur á markaði að gera. Menn sáu að kostnaðurinn var ekki alltaf lykilatriði í úthýsingu rekstrarþátta, önnur atriði gátu einnig vegið þungt s.s. aukin hagræðing, sveigjanleiki, skýrari áherslur, einföldun í rekstri og tímasparnaður. Nú er svo komið að bandarískir stjórnendur líta á úthýsingu sem tækifæri til öflugs samstarfs við önnur fyrirtæki í baráttunni um markaðshlutdeild og hlutdeild í hugum fólks. Beinn fjárhagslegur ávinningur er þó enn ein helsta ástæðan að baki úthýsingu.